Tónlist

Næsta plata epískari

Upptökum er lokið á annarri plötu Suðurnesjasveitarinnar Valdimars. Söngvaranum Valdimari Guðmundssyni líst mjög vel á útkomuna. „Hún er kannski meira epísk heldur en fyrri platan en samt rökrétt framhald. Þetta eru stærri útsetningar og allt aðeins stærra," segir hann aðspurður.

Þessa dagana er verið að hljóðblanda plötuna og stefnt er á útgáfu í október. Um helmingur laganna var saminn í Hollandi þar sem gítarleikarinn Ásgeir Aðalsteinsson er í tónlistarnámi. „Ég fór í heimsókn og við sátum þarna tímunum saman og sömdum lög," segir Valdimar.

Fyrsta plata sveitarinnar, Undraland, kom út fyrir tveimur árum og hafa selst á fjórða þúsund eintök. Lagið Yfirgefinn naut mikilla vinsælda og spurður hvort annar slíkur slagari sé væntanlegur segist Valdimar ekki hafa hugmynd um það.

„Það er svolítið erfitt að spá fyrir um það. Það gæti vel verið en það gæti líka verið að fólk þoli þetta ekki. En við fílum þetta rosa mikið og það er nóg fyrir okkur."- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×