Tónlist

Védís hefur sólóferilinn að nýju

Ragnheiður Gröndal og Védís Hervör leiða saman hesta sína á tónleikum á morgun þar sem Védís kemur út úr skápnum með nýtt efni ásamt eiginmanni sínum.
Fréttablaðið/ernir
Ragnheiður Gröndal og Védís Hervör leiða saman hesta sína á tónleikum á morgun þar sem Védís kemur út úr skápnum með nýtt efni ásamt eiginmanni sínum. Fréttablaðið/ernir
„Þetta er svo ríkt í mér og það sem gerir mig hamingjusamasta og það liggur beinast við að rækta garðinn sinn,“ segir söngkonan Védís Hervör Árnadóttir. Hún flytur eigin tónsmíðar í fyrsta sinn í langan tíma annað kvöld sem gestur Ragnheiðar Gröndal í tónleikaröð hennar á Café Haiti klukkan hálf tíu.

Hún mun leika nýtt efni, í bland við lög af plötunni A Beautiful Life: Recovery Project frá árinu 2007, á hljómborð og rödd ásamt eiginmanni sínum Þórhalli Bergmann. „Við ætlum að flytja glæný lög. Sum eru þriggja ára gömul og önnur urðu til í byrjun árs,“ segir Védís. „Þegar Ragga bauð mér að vera með sló ég til. Þetta var akkúrat tíminn til að koma út úr skápnum með nýja efnið og við flytjum það eins og það kemur beint af kúnni.“

Ragnheiður hyggst halda mánaðarlega tónleika fram að áramótum til að undirbúa tónleikaferð um Þýskaland en plata hennar Astrocat Lullaby kemur út í Þýskalandi og víðar 31. þessa mánaðar.

Söngkonurnar eru góðar vinkonur og báðar nýbakaðar mæður. „Við höfum verið að hittast í kringum þetta barnastúss og hún talaði um að hana langaði að spila meira svo ég var svolítið að sparka í rassgatið á henni,“ segir Ragnheiður og skellir upp úr.

Védís hefur lagt stund á líffræðilega mannfræði og sinnt móðurhlutverkinu undanfarin ár og því lítið getað unnið að sólóferlinum. Hún hyggst þó gera breytingar á og setja tónlistina í fyrsta sætið. „Ég hef verið í góðu samstarfi við lagahöfundateymi í London frá árinu 2003 svo ég hef verið að gera fullt tengt músík,“ segir Védís og Ragnheiður bætir við að þær nái ef til vill að semja lítið lag fyrir tónleikana.

- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×