Körfubolti

Drekinn auglýsir eftir Miðjunni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Strákarnir í Græna drekanum hafa farið á kostum í stúkunni í vetur.
fréttablaðið/daníel
Strákarnir í Græna drekanum hafa farið á kostum í stúkunni í vetur. fréttablaðið/daníel
Þór frá Þorlákshöfn fær tækifæri til þess að jafna einvígið gegn KR í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla í kvöld. Þá þurfa KR-ingar að mæta í Iceland Glacial-höllina sem er gríðarmikið vígi.

Það er ekki síst að þakka hinni vösku stuðningsmannasveit félagsins – Græna drekanum – sem hefur heldur betur sett svip sinn á deildina í vetur. Drekamenn völtuðu yfir fámenna Miðjumenn, stuðningsmenn KR, í fyrsta leiknum.

„Við vinnum alltaf í stúkunni. Það er daglegt brauð hjá okkur," sagði borubrattur forseti Græna Drekans, Heiðar Snær Magnússon.

„Við bjuggumst við meiri mætingu hjá Miðjunni og frammistaða þeirra olli vonbrigðum. Ég auglýsi eftir Miðjunni og að þeir fjölmenni og veiti okkur alvöru samkeppni í næstu leikjum."

Þó svo að létt skot gangi á milli stuðningsmanna meðan á leik stendur andar ekki köldu á milli manna og Miðjumenn hafa boðið Drekamönnum í létta upphitun fyrir þriðja leik liðanna.

„Það verður bara gaman og vonandi koma fleiri Miðjumenn á þann leik. Við mætum allir galvaskir og efumst ekkert um að við munum vinna baráttuna í stúkunni. Þar erum við bestir," sagði Heiðar en hann gengur undir nafninu Byssan rétt eins og ein aðalsprautan í Miðjunni – Ingvar Örn Ákason.

„Ég vissi reyndar ekki af því en mér skilst að hann sé búinn að kalla sig Byssuna lengur og er því upprunalega Byssan í þessu einvígi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×