Lífið

Þekkist ekki lengur úti á götu

Smári er byrjaður að safna fyrir Mottumars.
Smári er byrjaður að safna fyrir Mottumars. Mynd/Anton
„Það er mjög þungu fargi af mér létt. Ég var að spá í að setja sílíkon í hökuna til að jafna út þungann," segir Smári Tarfur Jósepsson.

Gítarleikarinn snjalli er búinn að raka af sér alskeggið sem hann hefur verið með á andlitinu nánast samfleytt síðan 1994, eða í átján ár. Skeggið hefur verið einkennismerki hans en nú er svo komið að hann þekkist ekki úti á götu. „Nú er ekki glápt á mann og hneykslast lengur. Skeggið er heldur ekki að fjúka framan í mig eins og vildi gjarnan gerast."

Það voru þær Guðný Gígja Skjaldardóttir og Bjartey Sveinsdóttir sem eru með honum í hljómsveitinni Ylju sem áttu þátt í þessari stóru ákvörðun.

„Þær hafa ýtt mér út í margt skemmtilegt og framandi, þar á meðal mottuna góðu. Best finnst mér þó að þær eru ákaflega hæfileikaríkir gítarleikarar og samvinna mín við þær hefur ýtt mér til þess að verða enn betri á gítar sjálfur," segir Smári, sem er einna þekktastur fyrir samstarf sitt með rappsveitinni Quarashi.

Í stað alskeggsins er Smári kominn með forláta mottu og er þegar byrjaður að safna fyrir Mottumars. Hægt er að sjá síðuna hans hér.

„Það er ákveðinn húmor í mottunni sem mér finnst skemmtilegur. Það blundar líka í manni mikill Þjóðverji. Ég var alltaf rosalegur Detlef Schrempf-aðdáandi í gamla daga," segir hann hress og á við þýska NBA-leikmanninn. „Svo hef ég ekki séð hökuna á mér síðan rétt um tvítugt. Ég hélt að það væri bara krepptur hnefi þarna undir." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×