Lífið

Tökur á Ben Stiller-mynd í apríl

Tökur á gamanmynd Bens Stillers, The Secret Life of Walter Mitty, eiga að hefjast í apríl næstkomandi.

Samkvæmt kvikmyndavefnum Imdb.com fara tökurnar fram á Íslandi og í New York. Framleiðslufyrirtækið True North, sem var Ben Stiller til halds og trausts þegar hann kynnti sér tökustaði hér á landi síðasta sumar, vildi ekkert tjá sig um mögulegar tökur hér á landi.

Frumsýna á myndina á næsta ári og mun Stiller leikstýra og leika aðalhlutverkið. Með önnur hlutverk fara Óskarsverðlaunaleikkonan gamalreynda Shirley MacLaine, Kristen Wiig sem sló í gegn í grínmyndinni Bridesmaids, Adam Scott og Patton Oswalt.

The Secret Life of Walter Mitty er byggð á samnefndri gamanmynd frá árinu 1947 og fjallar um draumóramanninn Mitty sem framkallar ljósmyndir fyrir tímaritið Life. Þegar ljósmyndafilma týnist þarf hann að bregða sér í hlutverk alvöru hetju og lendir þá í ýmsum ævintýrum.

Stiller skoðaði ýmsa tökustaði hér á landi í fyrra vegna myndarinnar, þar á meðal á Seltjarnarnesi, Djúpavogi og Stykkishólmi, og virðist hafa heillast mjög af því sem fyrir augu bar.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×