Sport

Hrafnhildur 9/100 úr sekúndu frá úrslitasæti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir
Hrafnhildur Lúthersdóttir
Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH hafnaði í 17. sæti í 50 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug sem hófst í Tyrklandi í morgun.

Hrafnhildur synti í öðrum riðli undanrásanna og kom í mark á 31,17 sekúndum. Tíminn var sá 17. besti en lakasti tíminn inn í úrslitin var 31,08 sekúndur.

Hrafnhildur bætti tímann sinn um 5/100 úr sekúndu í umsundi um varasæti í úrslitunum. Tveggja ára gamalt Íslandsmet Hrafnhildar í greininni er 30,82 sekúndur.

Að sögn Klaus Ohk, þjálfara íslenska liðsins, er Hrafnhildur vel stemmd og tilbúin fyrir átök næstu daga.

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Ægi, hafnaði í 32. sæti í 100 metra bringusundi. Anton Sveinn synti á 59,85 sekúndum en Íslandsmet Jakobs Jóhanns Sveinssonar í greininni er 58,90 sekúndur.

Anton Sveinn synti fyrri metrana fimmtíu á 28,03 sekúndum en dró aðeins af honum á seinni fimmtíu metrunum.

Orri Freyr Guðmundsson úr SH þreytti frumraun sína í fullorðinsflokki á aljþóðavettvangi er hann stakk sér til sunds í 100 metra flugsundi.

Orri synti á tímanum 55,81 sekúndu og hafnaði í 54. sæti af 101 keppanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×