Fótbolti

UEFA gæti gert miklar breytingar á Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, virðist vera langt komið með að gefast upp á Evrópudeildinni því sambandið veltir nú fyrir sér að gera miklar breytingar á Evrópukeppnunum. Þetta kemur fram í viðtali við Michel Platini í frönsku blaði.

UEFA íhugar að leggja niður Evrópudeildina en tvöfalda í staðinn fjölda liða í Meistaradeildinni. Það yrðu því 64 félög í Meistaradeildinni í stað 32 áður.

"Við erum að ræða þetta og munum ekki taka ákvörðun fyrr en 2014. Það er ekki búið að ákveða neitt," sagði Michel Platini í viðtali við franska blaðið Ouest-France.

Þetta myndi þýða fyrir ensku deildina að hún fengi að minnsta kosti fimm lið inn í Meistaradeildina.

"Við erum að skoða hvernig fyrirkomulagið eigi að vera á Evrópukeppnunum frá 2015 til 2018," sagði Platini en hann hefur engar áhyggjur af því að ríkustu félögin slíti sig í burtu og stofna sína eigin Meistaradeild.

"Ég sé ekki hvernig þeir ætla að skipuleggja slíkt utan UEFA. Hver ætlar að dæma leikina og á hvaða völlum ætla þau að spila," spyr Platini á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×