Helgi Már Magnússon, spilandi þjálfari KR, og hinn ungi Martin Hermannsson voru hetjur sinna manna í fimm stiga sigri á ÍR, 79-74, í Hertz-hellinum í Seljaskóli í 7. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.
Helgi Már og Martin Hermannsson skoruðu ellefu síðustu stig leiksins en KR-ingar unnu síðustu þrjár mínútur leiksins 11-0 og breyttu stöðunni úr 74-68 fyrir ÍR í 74-79 KR-sigur.
Helgi Már skoraði sex stig í röð á lokakaflanum, fyrst með því að setja niður tveggja stiga körfu og fá víti að auki og svo með því að hitta úr þriggja stiga skoti og koma KR í 77-74. Martin hóf endurkomuna á þristi og endaði hana síðan með því að setja niður tvö víti.
ÍR-ingar klikkuðu á sex síðustu skotum sínum í leiknum og skoruðu síðustu körfu sína þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
Martin Hermannsson var með 29 stig og 4 stoðsendingar í kvöld og Helgi Már Magnússon skoraði 16 stig og tók 7 fráköst. Finnur Atli Magnússon skoraði 13 stig. Eric Palm skoraði 20 stig fyrir ÍR og Nemanja Sovic var með 15 stig.
KR var 21-19 yfir eftir fyrsta leikhlutann en ÍR vann annan leikhlutann 23-16 og var fimm stigum yfir í hálfleik, 42-37. ÍR var síðan 59-53 yfir fyrir lokaleikhlutann.
ÍR-KR 74-79 (19-21, 23-16, 17-16, 15-26)
ÍR: Eric James Palm 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Nemanja Sovic 15/8 fráköst, Isaac Deshon Miles 11, Hreggviður Magnússon 9/8 fráköst, Sveinbjörn Claessen 8, Vilhjálmur Theodór Jónsson 4, Ellert Arnarson 3, Hjalti Friðriksson 2, Þorvaldur Hauksson 2..
KR: Martin Hermannsson 29/4 fráköst, Helgi Már Magnússon 16/7 fráköst, Finnur Atli Magnusson 13/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 9/8 stoðsendingar, Keagan Bell 5, Danero Thomas 4/4 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 3.
Körfubolti