Körfubolti

Århus hafði betur í Íslendingaslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Freyr Jónsson í leik með Keflavík.
Arnar Freyr Jónsson í leik með Keflavík.
Það var Íslendingaslagur í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld en þá mættust BC Århus og Værlöse BBK í framlengdri viðureign.

Árósarliðið, með þá Arnar Frey Jónsson og Guðna Valentínusson innanborðs, höfðu að lokum sigur, 71-68. Axel Kárason leikur með Værlöse.

Værlöse missti reyndar Axel af velli þar sem hann fékk sína fimmtu villu þegar fimmtán sekúndur voru eftir af fjórða leikhluta.

Liðið var þá tveimur stigum yfir en leikmaðurinn sem Axel braut á fór á vítalínuna og jafnaði metin. Því þurfti að framlengja leikinn.

Liðin skiptust á að vera í forystu í framlengingunni en Árósarliðið reyndist sterkari á lokasprettinum.

Arnar Freyr setti niður eina þriggja stiga körfu í framlengingunni en hann var stigahæstur leikmanna Århus í leiknum með sautján stig, auk þess að gefa sex stoðsendingar og taka fjögur fráköst.

Guðni skoraði ellefu stig en tók þar að auki tíu fráköst. Axel skoraði átta stig fyrir Værlöse og tók fimm fráköst.

Pavel Ermolinskij og félagar hans í Norrköping Dolphins unnu mikilvægan sigur á Uppsala, 94-87, í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Pavel spilaði í 33 mínútur og skoraði alls tólf stig í leiknum, auk þess að taka átta fráköst og gefa sex stoðsendingar. Hann nýtti öll fjögur skot sín innan þriggja stiga línunnar.

Með sigrinum komst Norrköping í átta stig en liðið er í sjöunda sæti deildarinnar. Uppsala er í þriðja sæti með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×