Hnefaleikakapparnir Vitali Klitschko og Andre Ward vörðu báðir heimsmeistaratitla sína í þyngdarflokkum sínum í gær og nótt.
Úkraínumaðurinn Klitschko fór létt með Manuel Charr frá Þýskalandi þegar þeir mættust í Moskvu. Bardaginn var stöðvaður í fjórðu lotu en Charr hafði verið sleginn niður í annarri lotu.
Charr fékk svo skurð fyrir ofan hægra auga í fjórðu lotu sem varð til þess að bardaginn varð stöðvaður. Charr brást afar illa við þessu og mótmælti kröftuglega.
Þetta var mögulega síðasti bardagi Klitschko á ferlinum en það mun ráðast af því hvort hann verði kosinn á þing í Úkraínu í næsta mánuði. Klitschko sagði fyrir bardagann að framhaldið muni ráðast af útkomu kosninganna.
Klitschko varði WBC-þungavigtartitil sinn í nótt en hann er 41 árs gamall. Wladimir Klitschko, yngri bróðir Vitali, er handhafi allra annarra stóru titlanna í sama þyngdarflokki.
Bandaríkjamennirnir Andre Ward og Chad Dawson áttust svo við í ofurmillivigt þar sem sá fyrrnefndi varð WBA- og WBC-heimsmeistaratitla sína.
Ward sló Dawson niður í þriðju og fjórðu lotu og játaði sig svo sigraðan eftir tíundu lotu. Þetta var 26. sigur Ward í röð en hann er enn ósigraður.
Dawson er heimsmeistari í léttþungavigt en létti sig svo hann gæti keppt í þessum þyngdarflokki.
