Körfubolti

Jón Arnór og Hlynur leika báðir sextugasta landsleikinn sinn í Serbíu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson hefur fengið að finna fyrir því í keppninni.
Jón Arnór Stefánsson hefur fengið að finna fyrir því í keppninni. Mynd/Valli
Jón Arnór Stefánsson og Hlynur Bæringsson munu báðir leika 60. A-landsleikinn sinn í kvöld þegar Ísland sækir Serbíu heim í undankeppni Evrópumótsins. Leikurinn fer fram í Cair Sports Center í Nis og hefst klukkan 18.30 að íslenskum tíma.

Jón Arnór hefur skorað 772 stig í sínum 59 landsleikjum eða 13,1 stig að meðaltali í leik en Hlynur er með 612 stig í sínum 59 leikjum eða 10,4 stig að meðaltali í leik. Ísland hefur unnið 21 af leikjum Hlyns en 20 af leikjum Jóns Arnórs.

Jón Arnór Stefánsson lék sinn fyrsta landsleik í Keflavík 1. ágúst 2000 en þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins á Norðurlandamótinu 2000. Jón Arnór skoraði 9 stig í leiknum.

Hlynur Bæringsson lék sinn fyrsta landsleik í Skopje í Makedóníu 23. febrúar 2000 í milliriðli Evrópukeppninnar en það var eini landsleikur hans til ársins 2003. Hlynur kom inn á í eina mínútu og tók eitt sóknafrákast.

Hlynur og Jón Arnór hafa leikið 30 af þessum 59 leikjum saman en voru ekki saman í leik með landsliðinu fyrr en í leik á móti Danmörku í Árósum 10. september 2004. Jón Arnór skoraði 13 stig í þeim og Hlynur var með 10 stig en leikurinn tapaðist. Þeir voru í fyrsta sinn saman í sigurliði níu dögum síðar þegar íslenska liðið vann Rúmeníu í Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×