Körfubolti

Ísland tapaði með 56 stigum í Serbíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslendingar máttu þola stórt tap fyrir Serbíu í undankepppni EM í körfubolta ytra í kvöld. Lokatölur voru 114-58, heimamönnum í vil.

Eins og tölurnar bera með sér var lítil spenna í leiknum. Ísland komst í 5-2 eftir eina og hálfa mínútu en þá komu þrettán stig í röð hjá Serbum sem litu aldrei um öxl eftir það.

Staðan eftir fyrsta leikhluta var 35-12 og munurinn í hálfleik var orðinn 37 stig, 66-29. Serbar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og léku sér að íslensku landsliðsmönnunum.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði fjórtán stig fyrir Ísland og Hlynur Bæringsson tólf. Aðrir skoruðu sex stig eða minna.

Serbía komst í tíu stig í riðlinum en Ísland er í fimmta sætinu með sjö stig. Svartfjallaland er á toppnum með tólf stig eftir sigur á Ísrael á útivelli í kvöld, 81-76.

Eistland er með tíu stig, rétt eins og Serbar, og Ísrael er í fjórða sæti með níu stig. Slóvakar reka lestina í riðlinum með sex stig eftir að hafa tapað öllum sínum leikjum.

Ísland mætir næst Slóvakíu á sunnudaginn og fer leikurinn fram hér heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×