Körfubolti

Bandaríkin unnu gullið í spennuleik gegn Spánverjum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bandaríska landsliðið fagnandi eftir leikinn.
Bandaríska landsliðið fagnandi eftir leikinn.
Bandaríkjamenn tryggðu sér gullið í 107 - 100 sigri á Spánverjum í London. Þetta er í fimmta sinn á síðustu 6 Ólympíuleikum sem Bandaríkjamenn sigra körfuboltamót Ólympíuleikanna og aðra Ólympíuleikanna í röð sem þeir sigra Spánverja í úrslitum.

Fyrir leikanna var talið af Bandaríkjamenn ættu nokkuð greiðan aðgang að gullinu en víst var að Spánverjar með Gasol bræðurna fremsta í flokki ætluðu ekki að selja sig ódýrt.

Bandaríkin byrjuðu leikinn betur og höfðu yfirhöndina allt frá byrjun þótt Spánverjar væru aldrei langt undan. Sjö þriggja stiga körfur grundvölluðu 8 stiga forskot þeirra eftir fyrsta leikhluta en staðan var þá 35-27.

Spánverjar hinsvegar börðust vel í öðrum leikhluta og náðu að brúa bilið aftur, þrátt fyrir að Marc Gasol hafi lent í villuvandræðum eftir aðeins 5 mínútur í öðrum leikhluta. Þeir gáfust þó ekki upp og héldu áfram að saxa á forskot Bandaríkjamanna sem fóru með aðeins 1 stiga forskot í hálfleik í stöðunni 59-58.

Þriðji leikhluti var í járnum, Pau Gasol sýndi afhverju hann er meðal bestu leikmanna NBA deildarinnar og áttu leikmenn Bandaríkjanna í miklum vandræðum með hann. Munurinn var enn aðeins eitt stig í lok þriðja leikhluta, 83-82 Bandaríkjunum í vil.

Það var svo í fjórða leikhluta sem Bandaríkjamenn náðu að byggja upp smá forskot á Spánverja sem þeir náðu aldrei að brúa. Munurinn fór mest upp í 11 stig en að lokum unnu Bandaríkjamenn 7 stiga sigur.

Ljóst var fyrir mótið að liðið sem Bandaríkin sendu var ógnarsterkt og einfaldlega krafa um að þeir myndu snúa aftur með gullið. Þeir stóðu undir öllum væntingum og fara heim með gull aðra Ólympíuleikana í röð. LeBron James færði sig upp fyrir Michael Jordan og er hann orðinn næst stigahæsti leikmaður Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum frá upphafi.

Pau Gasol var atkvæðamestur í liði Spánverja með 24 stig en í liði Bandaríkjanna var Kevin Durant stigahæstur með 30 stig.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×