Körfubolti

Peter Öqvist: Frábær gluggi fyrir leikmenn Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Peter Öqvist á landsliðsæfingu í gær.
Peter Öqvist á landsliðsæfingu í gær. Mynd/Anton
„Ég elska nýja fyrirkomulagið því það þýðir að heimsklassalandslið á borð við Serbíu koma í heimsókn til Íslands," segir landsliðsþjálfari Íslands í körfuknattleik, Svínn Peter Öqvist.

Íslendingar mæta Serbum í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll í kvöld en mikið álag verður á landsliðsmönnum Íslands og annarra Evrópuþjóða næstu fjórar vikurnar.

Fyrirkomulagi keppninnar hefur verið breytt frá því sem áður var þegar spilað var í styrkleikaskiptum deildum. Nú er öllum landsliðum Evrópu, að frátöldum þeim sem þegar hafa tryggt sér sæti í lokakeppninni með góðum árangri á síðasta heimsmeistaramóti, raðað í riðla í undankeppninni. Fyrirkomulagið er hið sama og í undankeppnum knattspyrnulandsliða. Tvö efstu landsliðin komast í lokakeppnina og mögulega þjóðin í 3. sæti líka.

„Tíu dagar á 26 dögum er ekki auðvelt en áskorunin er afar áhugaverð," segir Öqvist sem hefur ýmsar væntingar til íslensku strákanna í keppninni.

„Við lögðum grunninn að nýju kerfi á síðasta ári og nú er komið að því að sjá hvar við stöndum. Það þýðir ekkert annað en að vænta þess að við munum vinna nokkra leiki. Maður verður að gera sér grein fyrir að sum liðanna í riðlinum eru afar sterk og í raun ekkert lélegt lið. Ég vil þó sjá frammistöðu sem við getum verið stolt af," segir Öqvist.

„Ég vil byggja upp orðspor að það sé ekki auðvelt að koma til Íslands og spila gegn íslenska liðinu. Ég vil að fólk beri virðingu fyrir landsliði Íslands," segir Öqvist sem telur leikmenn Íslands hafa að miklu að keppa í undankeppninni.

„Þetta er frábær gluggi fyrir leikmennina. Fjölmargir munu fylgjast með leikjunum. Sumir leikmennirnir eru á góðum stað en fyrir aðra leikmenn landsliðsins getur keppnin opnað nýjar dyr," segir Öqvist.

Landsleikur Íslands og Serbíu fer fram í Laugardalshöll í kvöld og hefst klukkan 20.


Tengdar fréttir

Verður örugglega troðið í grillið á okkur

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik hefur í kvöld leik í undankeppni Evrópumótsins. Mótherjinn er landslið Serbíu sem hefur án nokkurs vafa á að skipa einu sterkasta landsliði heims. Silfurverðlaun á Evrópumótinu 2009 og fjórða sæti á heimsmeistaramótinu ári síðar eru til marks um getu þeirra.

Logi Gunnars: Landsleikirnir á móti stóru þjóðunum standa upp úr

"Þetta lið er með þeim bestu í heimi. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu. Þess vegna er maður í þessu og reynir að vera með í eins mörgum leikjum og maður getur. Maður vill mæla sig á móti þeim bestu," segir landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×