Bandaríkjamaðurinn Michael Phelps vann í kvöld sigur í 100 metra flugsundi á þriðju Ólympíuleikunum í röð.
Phelps hefur þar með unnið til sautján gullverðlauna á Ólympíuleikum til viðbótar við tvö silfurverðlaun og tvö bronsverðlaun. 21 verðlaun á Ólympíuleikum alls og heldur áfram að bæta metið sem hann setti með 19. verðlaununum á dögunum.
Phelps kom í mark á tímanum 51.21 sekúnda en Suður-Afríkumaðurinn Chad Le Clos og Rússinn Evgeny Korotyshkin deildu öðru sætinu á 51.44 sekúndum. Phelps hefndi því fyrir tapið gegn Le Clos í 200 metra flugsundinu.

