Golf

Tinna: Pútterinn var heitur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Jóhannsdóttir.
Tinna Jóhannsdóttir. Mynd/Daníel
Tinna Jóhannsdóttir úr Keili lék best allra í kvennaflokki á þriðja degi Íslandsmótsins í höggleik og hún var í viðtali hjá Sigurði Elvari Þórólfssyni í útsendingu Stöð 2 Sport frá mótinu. Tinna er einu höggi á eftir Valdísi Þóru fyrir lokadaginn.

„Ég var ekkert að spila neitt brjálæðislega vel en var bara að setja mörg pútt í og pútterinn var heitur," sagði Tinna sem lék á 69 höggum eða einu höggi undir pari.

„Það var öðruvísi vindátt en undanfarna tvo daga og mér fannst þessi vera skemmtilegri. Aðstæður voru samt svipaðar," sagði Tinna en hvað breyttist frá tveimur fyrstu dögunum.

„Það var svo sem ekkert sem breyttist nema að stutta spilið var nákvæmara og ég var að komast nær holunni í vippunum og setja púttin í," sagði Tinna og hún var spör á yfirlýsingarnar.

„Þetta er ekkert búið og það er heill dagur eftir. Þetta verður bara gaman á morgun og spennandi," sagði Tinna sem varð Íslandsmeistari fyrir tveimur árum.

Valdís Þóra var ekki alveg eins sátt við pútterinn sinn. „Ég var ekki að spila mitt besta golf í dag því ég var að missa pútt og lesa flatirnar vitlaust. Ég var ekki funheit á pútternum í dag," sagði Valdís Þóra sem er sammála Tinnu að það sé mikið eftir og að allt geti gerst á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×