Handbolti

Hrafnhildur: Skemmtilegra að berja bestu liðin

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hrafnhildur er klár í slaginn.
Hrafnhildur er klár í slaginn.
Landsliðskonan Hrafnhildur Skúladóttir er heldur betur klár í slaginn fyrir leikinn gegn Spáni í Vodafone-höllinni í kvöld. Það er leikur sem verður að vinnast ef Ísland ætlar á EM.

"Mér fannst lítið að marka síðasta leik gegn Spáni. Þá vorum við í engu standi og bara drullulélegar. Það var fáranlegt að skildum bara tapa með fimm marka mun gegn eins góðu liði miðað við hvað við vorum slakar. Við erum í miklu betra ástandi núna. Við erum allt annað lið í dag," sagði Hrafnhildur ákveðin.

"Það er engin minnimáttarkennd í okkur þó svo þetta sé eitt besta lið heims. Það er bara þeim mun skemmtilegra að berja þær. Við munum mæta kolgeðveikar til leiks."

Hrafnhildur veit þó vel að margt þarf að ganga upp í leiknum svo Ísland geti unnið.

"Við þurfum að ná upp frábærum varnarleik og markvörslu. Þá koma þessi nauðsynlegu auðveldu mörk og við verðum að koma í veg fyrir að þær fái sín auðveldu mörk. Það gerðum við hrikalega vel á HM. Keyrðum vel til baka og létum stóru liðin virkilega hafa fyrir hlutunum," sagði Hrafnhildur en hún kann vel við að leikurinn sé eins og bikarúrslitaleikur.

"Það hentar alltaf íslenska liðinu klesst upp við vegg. Þá gengur yfirleitt betur. Við þekkjum þessa stöðu og ég held að það sé bara af hinu góða.

"Þær voru að spila erfiða leiki í undankeppni ÓL og þurfa svo að ferðast hingað. Þá er eftir að koma inn í Vodafonehöllina og þá fyrst verða þær hræddar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×