Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Fram - Valur 22-23 | Staðan í einvíginu er 1-1

Kristinn Páll Teitsson í Safamýri skrifar
Mynd/ernir
Valsarar jöfnuðu metin úrslitaeinvígi sínu í N1-deild kvenna í kvöld í háspennuleik gegn Fram. Ekki náðist að knýja fram sigurvegara á fyrstu 60. mínútunum og þurfti framlengingu þar sem Valsarar náðu að sigla sigrinum heim undir lokinn.

Þessi lið eru alls ekki ókunnug hvor öðru, þau hafa mæst í flestum úrslitaleikjum síðastliðin ár og hafa Valskonur haft betur í úrslitum Íslandsmótsins gegn Fram 2 ár í röð. Fram náðu þó mikilvægum sigri síðastliðinn miðvikudag þegar þær unnu fyrsta leikinn í þessari úrslitarimmu liðanna og gátu stigið stórt skref í átt að titlinum með sigri í kvöld.

Mikil spenna var í liðunum fyrstu mínútur leiksins og voru bæði liðin að spila góða vörn. Einkum tókst liði Vals með framarlega 5-1 vörn að halda aftur af Fram en þær náðu aðeins að skora 3 mörk fyrstu 17 mínúturnar. Fram spiluðu þó nægilega sterka vörn til að hleypa gestunum aldrei langt undan og var munurinn þrjú mörk í hálfleik, 11-8 fyrir Val.

Framarar komu grimmari inn í seinni hálfleik og spiluðu sterka vörn og átu upp forskot Vals. Þær héldu Valssókninni alveg aftur í rúmlega 12 mínútur og var það grundvöllur þess að þær náðu forskotinu í fyrsta sinn í leiknum á 49. mínútu og virtust þá vera að ná yfirhöndinni. Gestirnir af Hlíðarenda gáfust þó aldrei upp og jöfnuðu leikinn þegar 10 sekúndur voru eftir á leikklukkunni. Þrátt fyrir ágætis tilraun Framara náðu þær ekki að stela sigrinum á síðustu sekúndunum og þurfti því framlengingu til að útkljá leikinn.

Í fyrri hluta framlengingarinnar skiptust liðin á að skora og var staðan í lok hennar 21-21. Gestirnir hinsvegar náðu að tryggja sér sigurinn þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir á klukkunni, Þorgerður Anna Atladóttir átti þá erfitt skot sem endaði þó í netinu. Fram geystu aftur upp í sókn en náðu ekki að nýta sér möguleikann og var 1 marks sigur Vals staðreynd.

Bæði liðin spiluðu gríðarlega sterka vörn í þessum leik og þrátt fyrir langa markalausa kafla var aldrei langt á milli liðanna. Liðin þekkja vel inn á hvort annað og er ljóst að þetta einvígi verður spennandi fram á lokasekúndur.

Þorgerður Anna Atladóttir var atkvæðamest í liði Vals með 9 mörk en í liði Fram var Stella Sigurðardóttir markahæst með 8 mörk.



Þorgerður: Klikkuð stemming
mynd/ernir
„Svona á þetta að vera, þetta var ótrúlega gaman. Bæði liðin að sýna frábæran karakter og stemmingin klikkuð, það segir sitt að það þurfti að draga út auka stúku," sagði Þorgerður Anna Atladóttir, leikmaður Vals eftir leikinn.

„Það gerir þetta miklu skemmtilegra, stuðningsmenn okkar eru frábærir og þrátt fyrir að vera færri en stuðningsmenn Fram í dag létu þeir í sér heyra í dag og voru alveg hreint frábærir."

Valsstúlkur byrjuðu leikinn mjög vel með Rebekku Rut fremsta í 5-1 vörn og Þorgerður var ánægð að vera í hennar liði.

„Stella var ekki að fara að skora önnur 12 mörk hér í kvöld. Eins ógeðslega pirrandi og það er að spila á móti Rebekku er frábært að hafa hana í sínu liði. Við ákváðum fyrir leikinn að keyra upp tempóið og það aðstoðaði Jennýju sem var frábær í kvöld."

„Það er stutt í næsta leik og við höfum engann tíma í að æfa ný leikkerfi, þetta einvígi er bara spurning um hvaða lið vill sigurinn meira. Þessi lið þekkjast vel og næsti leikur verður eflaust mjög spennandi og skora ég á fólk að mæta," sagði Þorgerður.

Stella: Skora á alla Framara
mynd/ernir
„Ömurlegt að þetta hafi lent þeirra megin en ekki hjá okkur í framlengingunni, þetta gat dottið hvoru megin hér í kvöld," sagði Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram eftir leikinn.

„Við sýndum karakter með að koma til baka eftir mjög slakann fyrri hálfleik þar sem við vorum 4 mörkum undir. Við gáfumst hinsvegar aldrei upp og hefðum eiginlega átt að klára þetta á sextíu mínútunum."

Bæði liðin spiluðu flotta vörn í kvöld og komu langir kaflar sem liðin stöðvuðu gjörsamlega sóknarleik hvors annars.

„Þetta var frábær vörn hjá okkur í seinni hálfleik að halda þeim í aðeins sex mörkum. Það gerir það ennþá grátlegra að hugsa til þess að við vorum 2 mörkum yfir þegar nokkrar mínútur voru eftir en náðum ekki að klára leikinn."

Staðan er 1-1 í úrslitaeinvíginu og er Stella spennt fyrir næstu leikjum.

„Þetta er frábært úrslitaeinvígi, svona eiga úrslitaeinvígi að vera. Ég skora á alla Framara að mæta á Hlíðarenda á mánudaginn og gera það að okkar heimavelli. Rúv er ekki að sýna þetta svo það er ennþá betri ástæða fyrir því að mæta og sjá háspennuleiki," sagði Stella.

Anna: Getum gleymt síðasta leik
mynd/ernir
„Þetta var hrikalega gott upp á framhaldið, bæði lið þekkja hvort annað eins og handarbak sitt og það var gríðarlega mikilvægt að klára þetta hérna í kvöld," sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Vals eftir leikinn.

Valur spilaði framarlega 5-1 vörn og voru fljótar að loka á Stellu Sigurðardóttir sem átti stórleik í fyrsta leik liðanna.

„Vörnin virkaði mjög vel og við fengum út úr henni það sem við vildum fá ásamt því að fá hraðaupphlaup út frá því sem er líferni okkar. Svo verður maður verður að loka á Stellu, hún er góð skytta sem skorar 12 mörk í leik ef þú gætir þín ekki."

„Það er rosalega gott að núna er nokkurnveginn 0-0 og við getum gleymt þessum skítaleik sem við spiluðum á Hlíðarenda og byrjað upp á nýtt."

Næsti leikur liðanna er á mánudaginn og ljóst er að það verður hörkuspennandi einvígi

„Við misstum fjöldan allra bolta í þessum leik en náðum samt að sigra, ef við náum að lágmarka takmarkaða bolta og spila sömu vörn og við spiluðum hérna áðan þá er ég viss um að við höfum þetta," sagði Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×