Körfubolti

Troðslustelpan og félagar töpuðu ekki leik í vetur | Baylor meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner og félagar hennar í Baylor tryggðu sér bandaríska meistaratitilinn í kvennaháskólakörfuboltanum í nótt þegar þær unnu 19 stiga sigur á Notre Dame í úrslitaleiknum. Baylor vann alla 40 leiki tímabilsins og varð sjöunda kvennaliðið sem nær því en það fyrsta síðan að liðin fóru að leika 40 leiki.

Brittney Griner er þekktust fyrir að troða boltanum í körfuna sem hún hefur gert nokkrum sinnum í vetur en í úrslitaleiknum var hún með 26 stig, 13 fráköst og 5 varin skot. Griner kveikti í áhorfendum fyrir leikinn með því að setja á svið smá troðslusýningu í upphitunni.

Þetta var annar meistaratitill Baylor en kvennalið skólans vann einnig árið 2005 og þá einnig undir stjórn Kim Mulkey.„Hennar verður minnst í sögunni sem einn af bestu stóru leikmönnunum sem hafa spilað leikinn. Ég er svo ánægð að hún náði þessum hring," sagði Kim Mulkey eftir leikinn.

Brittney Griner fagnaði titlinum eins og óð væri, dansaði við Robert Griffin III, besta leikmann háskólafótboltans, og tók þjálfara sinn síðan í skamma stund upp á aðra öxlina. „Ég á eftir að muna eftir þessari stundu alla mína ævi," sagði Griner.

Það er hægt að sjá Brittney Griner troða í leik með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×