Fyrsta vika réttarhaldanna fyrir Landsdómi hefur runnið sitt skeið. Ólíkt því sem sumir höfðu vonað er þetta engin skemmtidagskrá - í sem stystu máli má segja að þarna hópist miðaldra fólk og ræði efnahagsmál klukkustundum saman. Þetta á heldur ekki að vera skemmtilegt. Það er jú verið að sækja mann til saka.
Engu að síður er jafnan þéttsetið í salnum. Fjölmiðlar senda heilu teymin svo að ekkert fari nú forgörðum þegar menn tapa óhjákvæmilega athyglinni í örskotsstund. Næst Geir situr hans nánasta fjölskylda og missir ekki af neinu. Víðar um salinn má sjá fólk sem augljóslega er komið til að styðja sakborninginn; fyrrverandi aðstoðarmenn hans hlusta, taka glósur og prjóna, gamlir framkvæmdastjórar Sjálfstæðisflokksins koma og fara og annar þeirra hristir hausinn þegar talið berst að Landsbankanum. Hann sat einmitt í bankaráðinu. Fyrrverandi aðstoðarkona Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er meðal þaulsætnustu gesta og spjallar við Geir í flestum kaffipásum.
En þarna eru líka fleiri - laganemar í hrönnum, listamenn og hin og þessi þekkt andlit úr stéttum fræðimanna, útvarpsmanna og vörubílstjóra sem hafa ekki legið á skoðunum sínum frá hruni.
Og þótt réttarhöldin séu ekki færð þjóðinni heim í stofu milliliðalaust blasir við að þeir sem setjast í vitnastólinn í miðjum salnum eru fullmeðvitaðir um að á þeim hvíla ótal augu og eyru og að orð þeirra - ef þeim tekst sérstaklega vel upp (nú, eða illa) - kunna að verða lengi á allra vörum. Að því leyti er þinghaldið býsna ólíkt því sem tíðkast í þröngum sölum héraðsdóms þar sem iðulega er verið að takast á um afmarkaðri mál en hrun heils efnahagskerfis. Í stað þess að ógæfuleg vitni tuldri hortugheit í barminn og fyrtist við spurningum setja bísperrt fínimennin í vitnastúku Landsdóms gjarnan á langar og hástemmdar einræður, sem snúast fyrst og fremst um að þau hafi haft rétt fyrir sér en aðrir sjaldnast. Það er nefnilega ýmislegt sem þarf að koma á framfæri við fólkið í landinu. Og var það ekki einmitt það sem við vildum? Kannski.
Halldór Baldursson túlkar Landsdóm með sínu einstaka auga.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)