Körfubolti

NBA í nótt: Dallas aftur á sigurbraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dirk Nowitzky í leiknum í nótt.
Dirk Nowitzky í leiknum í nótt. Mynd/AP
Dirk Nowitzky var sjóðheitur þegar að Dallas Mavericks vann Utah Jazz í NBA-deildinni í nótt, 102-96. Nowitzky skoraði 40 stig sem er það mesta sem hann hefur skorað í einum leik á tímabilinu til þessa.

Á ýmsu hefur gengið hjá meisturunum í Dallas og liðið til að mynda tapaði síðustu fjórum leikjum sínum á undan. Liðið var með undirtökin í nótt en missti 23 stiga forystu í fimm stiga forystu á lokamínútunum. Það kom ekki að sök og Dirk og félagar kláruðu leikinn.

Lamar Odom hafði misst af síðustu fjórum leikjum á undan af fjölskylduástæðum en spilaði í nótt. Hann skoraði níu stig á átján mínútum. Hjá Utah var Paul Millsap stigahæstur með 24 stig en liðið náði ekki að fylgja eftir góðum sigri á Miami í fyrrakvöld.

Kevin Love fór mikinn þegar að lið hans, Minnesota, vann Portland 122-110. Love skoraði 42 stig í leiknum og tók tíu fráköst þar að auki. Þetta var fyrsti sigur Minnesota á Portland í sautján tilraunum.

Atlanta stöðvaði sigurgöngu Oklahoma City með því að vinna leik liðanna í nótt, 97-90. Oklahoma City hafði unnið sjö leiki í röð.

Joe Smith skoraði 30 stig fyrir Atlanta, þar af þrettán í fjórða leikhluta. Kevin Durant skoraði 35 stig fyrir Oklahoma City og Russell Westbrook 25.

Indiana vann New Orleans, 102-84, og þar með sinn sjötta leik í röð. Er það í fyrsta sinn í sjö ár sem liðið nær slíkri sigurgöngu. Danny Granger skoraði 20 stig fyrir Indiana.

Úrslit næturinnar:

Washington - Cleveland 101-98

Atlanta - Oklahoma City 97-90

Orlando - Milwaukee 114-98

Memphis - Detroit 100-83

New Orleans - Indiana 84-102

Dallas - Utah 102-96

Portland - Minnesota 110-122




Fleiri fréttir

Sjá meira


×