Fótbolti

AC Milan í fyrsta sinn í átta liða úrslitunum síðan 2007

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Van Bommel fagnar í kvöld.
Mark Van Bommel fagnar í kvöld. Mynd/AP
AC Milan tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld þrátt fyrir 0-3 tap á móti Arsenal. 4-0 sigur í fyrri leiknum skilaði ítalska liðinu áfram en liðið hefur ekki komist svona langt í keppninni í fimm ár.

AC Milan var síðast í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2006-2007 en þeir jafna nú ítalska metið með því að komast í sjöunda sinn í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Juventus hefur einnig komist sjö sinnum í átta liða úrslitin.

AC Milan fór alla leið og varð Evrópumeistari þegar liðið komst síðast í átta liða úrslitin 2007. Liðið sló þá út Celtic, Bayern Munchen og Manchester United á leið sinni í úrslitaleikinn og vann síðan Liverpool 2-1 í úrslitaleiknum í Aþenu.

AC Milan kom í kvöld fram hefndum gegn enskum liðum. Tottenham sló AC Milan út úr 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra og ítalska liðið féll út úr 16 liða úrslitunum fyrir Manchester United árið á undan. Arsenal sló líka AC Milan út úr 16 liða úrslituunum 2007-2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×