Innlent

Landsbankamenn voru ósammála um flutning Icesave til Bretlands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óeining var um það á meðal bankastjóra Landsbankans á árinu 2008 að flytja Icesave-reikningana inn í dótturfélag Landsbankans í Bretlandi. Þetta sagði Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, í vitnaleiðslum í Landsdómi í morgun.

„Ég greindi Rannsóknarnefnd Alþingis frá því á sínum tíma að ég hefði haft þá tilfinningu að bankastjórarnir tveir hafi ekki verið samstíga," sagði Ingimundur. Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari spurði Ingimund hvor bankastjóranna hefði verið hlynntur flutningi og hvor á móti. Ingimundur svaraði því ekki. „Ég held að það sé betra að þeir tjái sig um þetta sjálfir," sagði Ingimundur. Davíð Oddsson, sem var bankastjóri Seðlabankans á sama tíma og Ingimundur, sagði frá því í gær að Sigurjón Árnason hefði ekki talið að breska fjármálaeftirlitið myndi samþykkja þær eignir sem Landsbankinn þurfti að færa yfir til Bretlands á sama tíma og reikningarnir yrðu settir í dótturfélag.

Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði Ingimund hvenær Seðlabankinn hefði gert sér grein fyrir því að þessi innlánasöfnun í Bretlandi væri ekki sniðug. „Ég get ekki sett dagsetningu á það en ég geri ráð fyrir að það endurspeglist í þeim áhuga okkar á því að þetta verði sett í dótturfélag snemma á árinu 2008," sagði Ingimundur.

Vitnaleiðslum yfir Ingimundi er nú lokið og næstur til að bera vitni er Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×