Fótbolti

Þjálfari Napoli má ekki stýra liðinu gegn Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Walter Mazzarri.
Walter Mazzarri. Mynd/Nordic Photos/Getty
Walter Mazzarri, þjálfari Napoli, má ekki stjórna liði sínu í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar en ítalska liðið mætir þar enska liðinu Chelsea. Mazzarri áfrýjaði tveggja leikja banni sínu en dómur aganefndar UEFA stendur.

Mazzarri var dæmdur í bannið fyrir að hrinda Nilmar, framherja Villarreal, í leik liðanna 7. desember síðastliðinn en Napoli vann leikinn 2-0 og komst með þeim sigri áfram á kostnað Manchester City.

Þegar Mazzarri hrinti Nilmar var staðan markalaus og hann talaði um það eftir leikinn að ætlunin hafi verið að reyna að kveikja í sínum mönnum sem greinilega tókst.

Napoli mætir Chelsea 21. febrúar í fyrri leiknum á Ítalíu og seinni leikurinn er svo á Stamford Bridge 14. mars. Mazzarri má ekki hafa nein samskipti við liðið sitt eða aðstoðarmann í þessum tveimur leikjum, hvorki fyrir, eftir eða á meðan leiknum stendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×