Fótbolti

Ancelotti: Real og Barca eru langsigurstranglegust í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlo Ancelotti, stjóri Paris Saint-Germain, er sannfærður um að Meistaradeildarbikarinn sé aftur á leiðinni til Spánar. Hann telur að Real Madrid og Barcelona séu í sérflokki meðal bestu liða Evrópu og annaðhvort þeirra eigi eftir að vinna Meistaradeildina í vor.

Barcelona vann Meistaradeildina síðasta vor og var þá að vinna þennan eftirsótta titil í þriðja sinn á síðustu fimm árum. Real Madrid hefur ekki unnið titilinn síðan 2002 en ekkert félag hefur unnið hann oftar.

„Real og Barca eru langt fyrir ofan öll önnur lið," sagði Carlo Ancelotti í viðtali við AFP en AC Milan vann Meistaradeildina tvisvar sinnum undir stjórn Ancelotti.

„Þetta verða mjög jafnir leikir hjá öllum öðrum liðum í sextán liða úrslitunum. Það verður mjög erfitt fyrir öll hin liðin ekki síst fyrir Chelsea sem hefur verið í ströggli undanfarið," sagði Ancelotti.

Ancelotti talaði líka um það að það væri gott fyrir ensku deildina ef að Jose Mourinho hættir með Real Madrid og snýr aftur til Englands. „Það væri gott fyrir enskan fótbolta," sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×