Körfubolti

Rekinn út úr húsi eftir eina flottustu troðslu ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þær finnast varla flottari troðslurnar í körfuboltanum en sú sem Markel Brown náði í leik Oklahoma State og Missouri í bandaríska háskólakörfuboltanum í vikunni. Stærsta fréttin var þó sú að þetta var það síðasta sem strákurinn fékk að gera í leiknum.

Markel Brown fékk þarna frábæra sendingu frá leikstjórnandanum Keiton Page og tók boltann með annarri hendi í hæstu stöðu og tróð honum viðstöðulaust í körfuna, yfir einn varnarmanna Missouri.

Markel Brown fagnaði troðslunni með því að snúa að sér og hæðast að greyið varnarmanninum sem hann hafði troðið yfir. Dómari leiksins var ekki hrifinn, gaf honum tæknivillu og þar sem að þetta var önnur tæknivilla Brown í leiknum, þá var hann rekinn út úr húsi.

Brown hafði nefnilega líka fengið samskonar tæknivillu þegar hann tróð með tilþrifum í upphafi leiksins. Það er hægt að sjá þá troðslu með því að smella hér.

Markel Brown og æstir áhorfendur áttu í erfiðleikum með að skilja hvað hafði gerst og það er óhætt að segja að Brown hafi brotlent harkalega eftir háloftasýningu sína. Hinir leikmenn Oklahoma State létu þetta þó ekki á sig fá og tryggðu sér 79-72 sigur en fyrir leikinn bjuggust flestir við sigri Missouri-liðsins.

Það er hægt að sjá þessa stórglæsilegu troðslu Markel Brown með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×