Lífið

Fassbender líklegur sem Nói

líklegur Michael Fassbender er talinn líklegastur til að leika í myndinni Nói.
nordicphotos/getty
líklegur Michael Fassbender er talinn líklegastur til að leika í myndinni Nói. nordicphotos/getty
Christian Bale hefur ákveðið að hafna aðalhlutverkinu í stórmyndinni Nóa sem Darren Aronofsky hefur í hyggju að taka að hluta til upp hér á landi, eins og Fréttablaðið hefur greint frá.

Michael Fassbender, sem lék Magneto í X-Men: First Class, er núna talinn líklegastur til að hreppa hlutverkið eftir að hann hitti Aronofsky á dögunum og ræddi við hann.

Bale var talinn líklegur til að leika Biblíupersónuna Nóa, sem byggir örk og bjargar öllum dýrum heimsins frá flóði. Ástæðan fyrir því að hann dró sig út úr verkefninu er annríki, því hann hefur þegar ákveðið að leika í myndunum Lawless og Knight of Cups. Taldi hann sig því ekki hafa nægan tíma fyrir Nóa.

Fassbender er mjög vinsæll um þessar mundir. Tvær myndir eru þegar á dagskránni hjá honum, eða 12 Years a Slave, og framhaldið af X-Men: First Class.

Nói verður fyrsta mynd Aronofsky síðan Black Swan kom út. Framleiðsla á myndinni hefst næsta vor eftir handriti Johns Logan, sem síðast samdi handritið að fjölskyldumynd Martins Scorsese, Hugo. Tökudagarnir á Íslandi verða tuttugu talsins, ef allt gengur að óskum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×