Lífið

Þakklátar neðanjarðarrottur

mikill heiður Biggi Veira og Daníel Ágúst úr GusGus. Hljómsveitin hefur verið tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna.
fréttablaðið/stefán
mikill heiður Biggi Veira og Daníel Ágúst úr GusGus. Hljómsveitin hefur verið tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. fréttablaðið/stefán
„Þetta er rosalega mikill heiður. Við héldum að við værum bara einhverjar gamlar „retro underground“ rottur,“ segir Biggi Veira í GusGus.

Hljómsveitin hefur verið tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna fyrir plötuna Arabian Horse. Einn annar íslenskur flytjandi var tilnefndur, eða Björk fyrir Biophilia. Alls voru tólf plötur tilnefndar frá öllum norrænu löndunum, þar á meðal frá sænsku söngkonunni Lykke Li og hinni norsku Ane Brun.

„Það er gaman að tekið er eftir manni,“ segir Biggi. „Við vorum líka að vanda okkur. Á þessari plötu er allt samþjappað sem við höfum verið að gera í gegnum tíðina. En þetta er allt honum Högna [Egilssyni] að þakka, held ég. Stebbi [Stephan Stephensen] plataði hann í GusGus og hann gefur vídd í þessa plötu.“

Tilnefningin kom Bigga á óvart, enda voru margar aðrar góðar plötur í pottinum.

„Við höfum ekki sérstaklega átt mikið upp á pallborðið hjá hinum Norðurlandaþjóðunum en það á kannski eftir að breytast.“ Arabian Horse hefur fengið mjög góðar viðtökur hér á landi og selst í um fimm þúsund eintökum.

Jónsi vann Norrænu tónlistarverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir sólóplötuna Go. Verðlaunin verða afhent á hátíðinni by:Larm í Ósló 16. febrúar. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×