Lífið

Radcliffe leikur væntanlega Ginsberg

Bítskáld Daniel Radcliffe mun að öllum líkindum leika Allen Ginsberg í kvikmyndinni Kill Your Darlings.
Bítskáld Daniel Radcliffe mun að öllum líkindum leika Allen Ginsberg í kvikmyndinni Kill Your Darlings.
Daniel Radcliffe er smám saman að fjarlægjast sitt þekktasta hlutverk, sjálfan Harry Potter. Hann leikur aðalhlutverkið í spennuhrollvekjunni The Woman in Black og upplýsti nýverið að hann myndi að öllum líkindum leika Allen Ginsberg í kvikmyndinni Kill Your Darlings sem mun fjalla um samband bítskáldsins við þá Jack Kerouac og William Burroughs.

Ginsberg og Harry Potter gætu ekki verið ólíkari enda áttu bít-skáldin í ákaflega nánu sambandi við alls kyns vímugjafa. Ginsberg mælti til að mynda með neyslu LSD og vildi lögleiða það en talaði gegn sígarettureykinginum, sígarettur væru dóp hins opinbera að hans mati.

Bítskáldin þrjú kynntust fyrir tilstilli Luciens Carr sem var sameiginlegur vinur þeirra allra en eins ólíklega og það kann að hljóma (allt benti til þess að þetta væri listræn og áferðarfalleg kvikmynd) er Kill Your Darlings spennumynd. Carr sat nefnilega í fangelsi fyrir morð á ástmanni sínum, David Kammerer. Myndinni er leikstýrt af John Krokidas.

Radcliffe er ákaflega eftirsóttur sem leikari og er meðal annars í stóru hlutverki í söngleiknum How to Succed in Business Without Really Trying sem sýndur hefur verið fyrir fullu húsi á Broadway að undanförnu.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×