Lífið

Eurovision ekki bara hommar með meik

Gunnar og Viðar hyggjast miðla þekkingu sinni á Eurovision og málefnum Evrópu í beinni útsendingu á X-inu á morgun.
Gunnar og Viðar hyggjast miðla þekkingu sinni á Eurovision og málefnum Evrópu í beinni útsendingu á X-inu á morgun. Fréttablaðið/Pjetur
„Ég er forfallinn Eurovision-sjúklingur. Hef lifað tímana tvenna og man ekki eftir maí þar sem ég fylgdist ekki með Eurovision," segir þúsundþjalasmiðurinn Gunnar Sigurðarson.

Gunnar og Viðar Ingi Pétursson, félagi hans úr útvarpsþættinum sáluga Grútvarp, lýsa Eurovision-keppninni á morgun í beinni útsendingu á útvarpsstöðinni X977. Gunnar segist vera að svara kalli þjóðarinnar, en nokkur óánægja var með fjarveru Sigmars Guðmundssonar í undankeppninni á þriðjudaginn.

„Eins og þú veist kannski hefur verið gríðarleg undiralda í þjóðfélaginu vegna óánægju með að X-maðurinn Sigmar sé ekki að lýsa keppninni," segir Gunnar alvarlegur. „Ég held að útvarpsstöðin hafi fundið fyrir þessum þrýstingi."

Gunnar segist ekkert hafa út á lýsingu Hrafnhildar Halldórsdóttur að setja, enda fylgdist hann með undankeppninni í breska ríkissjónvarpinu BBC. „Ég veit að það var allt brjálað vegna þess að Sigmar var ekki, en ég get ekki dæmt frammistöðu hennar," segir hann.

Gunnar segir Eurovision-keppnina gefa ýmsar pólitískar vísbendingar og fullyrðir að hún lýsi stjórnmálasamstarfi þjóða, þjóðerniskennd og jafnvel umræðu um Evrópusambandið.

„Eurovision er ekki bara einhverjir meikaðir samkynhneigðir strákar heldur er keppnin pólitísk saga og menning þjóða," segir hann, „Við ætlum að upplýsa og fræða hlustandann – ekki bara í stjórnmálasögu, heldur líka um árangur í Eurovison."

- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×