Lífið

Vinir Sjonna hanga á bláþræði

Coming Home, íslenska laginu í Eurovision, er spáð tíunda sæti af blaðamönnum í Dusseldorf þar sem keppnin fer fram.

Felix Bergsson, sérstakur fjölmiðlafulltrúi hópsins, vitnar í þekktan frasa pólitíkusa í kosningaslag og segir drengina hafa fundið fyrir miklum meðbyr að undanförnu.

„Það er mikil stemning fyrir strákunum og þeir fengu fínar undirtektir eftir æfinguna í dag [gær]."

Í gærkvöldi var síðan komið að generalprufu hópsins en dómnefndir í löndunum sem Ísland er með í riðli kveða upp sinn dóm eftir þá æfingu.

„Þeir voru eilítið stressaðir á æfingunni um daginn og fundu aðeins fyrir þessu. Þeir hafa tekið þetta svo létt hingað til. En það er gott að þeir séu búnir að taka stressið út fyrir kvöldið," segir Felix sem kveðst aldrei aftur ætla að fara út í Eurovision í þessu hlutverki.

„Þetta er „once in a lifetime", ég er bara að gera þetta fyrir vin minn Sjonna."

Mikil vinátta hefur myndast milli Íslendinga og Norðmanna sem spáð er mikilli velgengni í keppninni og Alexander Rybak, sigurvegarinn frá 2009, hefur farið fögrum orðum um Vinina og dáðst að því að þetta séu allt alvöru tónlistarmenn. Slíkt er ekki algilt í þessari keppni.

„Ég fór síðan með Rybak í partý og það var ótrúleg upplifun, þeir ætluðu hreinlega að rífa hann í sig." -fgg

Hér fyrir ofan má sjá myndband sem var tekið af blaðamanni í salnum á annarri æfingu Vina Sjonna á föstudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×