Lífið

Nýr framkvæmdastjóri Kraums

nýr stjóri Jóhann Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kraums.fréttablaðið/stefán
nýr stjóri Jóhann Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kraums.fréttablaðið/stefán
„Ég er hæstánægður. Þetta er afar spennandi og skemmtilegt,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson sem hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tónlistarsjóðsins Kraums. 42 umsóknir bárust um stöðuna.

Jóhann Ágúst tekur við af Eldari Ástþórssyni sem er kominn til starfa hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP.

„Það er búið að vera gaman að fylgjast með Kraumi og það hafa verið flottir hlutir í gangi þar. Það er meiriháttar gaman að halda áfram því starfi sem hefur verið í gangi,“ segir Jóhann, sem hefur mikla reynslu af störfum innan tónlistargeirans. Hann starfaði í nokkur ár í versluninni 12 Tónum og hefur að undanförnu unnið fyrir hljómsveitirnar Amiinu og Nóru. Hann er menntaður viðskiptafræðingur frá HÍ og hefur lokið meistaranámi í menningarstjórnun frá Bifröst og námi í viðburðastjórnun frá Hólum.

Kraumur tónlistarsjóður, sem var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf. Úthlutanir sjóðsins á styrkjum fyrir árið 2011 verða tilkynntar á morgun og bíða margir tónlistarmenn spenntir eftir niðurstöðunni. Alls bárust 233 umsóknir um styrki sem er nýtt met.

Frá því Kraumur hóf starfsemi sína hafa yfir áttatíu listamenn og hljómsveitir hlotið stuðning frá sjóðnum og má þar nefna Bang Gang, Bloodgroup, Diktu, Hjaltalín, Mugison og Lay Low. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×