Veðravíti á þjóðvegi 1 Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 17. mars 2011 00:01 Ég þekki hjón sem gistu eitt sinn heila nótt í bílnum sínum uppi í Víkurskarði með þremur ungum börnum. Fjölskyldan ætlaði sér yfir í næstu sveit yfir páskahelgina og lagði af stað í góðu veðri frá Akureyri. Það var líka gott veður í sveitinni þangað sem ferðinni var heitið, en í skarðinu lentu þau í blindbyl og sáu hvorki hvað sneri upp né hvað sneri niður. Björgunarsveit á snjóbíl bjargaði þeim í dagrenningu ásamt fjölda fólks sem einnig hafði eytt nóttinni í skarðinu. Fjölskyldunni varð ekki meint af, enda vel búin og nestuð. Víkurskarð er veðravíti á þjóðvegi 1. Þar uppi getur verið kolvitlaus bylur en logn og blíða sitthvoru megin við. Þegar ég sótti skóla á Akureyri í eina tíð átti ég leið um skarðið ófáar helgarnar. Foreldrar mínir hringdu þá jafnan um nærsveitir að leita eftir einhverjum sem ég gæti verið í samfloti við yfir skarðið. Það var ekki ráðlegt að leggja á það einn. Ég veit ekkert hvað kostar að ryðja þetta skarð á veturna. Ég veit heldur ekkert hversu margar ferðir á vetri eru farnar þangað upp eftir að bjarga vegfarendum sem festast þar í snjóbyl, né hvað þær kosta eða hver borgar. Ég veit ekki hversu margir bílar fara þar út af snarbrattri hlíðinni á ári vegna hálku og ég hef ekki hugmynd um hversu margir metrar af vegriðum hafa verið settir þar upp, eftir að einhver bíllinn fór einmitt út af. Ég veit ekki hvað hallinn á veginum er margar gráður sitt hvoru megin niður af skarðinu né um hversu mörg prósent veggrip hjólbarða minnkar í rigningu, ísingu, snjó eða roki. Ég veit heldur ekki nákvæmlega hversu margir bensínlítrar né hversu margar krónur sparast við að aka beinustu leið gegnum göng í Vaðlaheiði á jafnsléttu. Ég hef heldur ekki reiknað nákvæmlega hversu margar mínútur ég spara á ferð minni við það að aka í gegnum göngin. Ég veit ekkert hversu margir eru með eða á móti því að Vaðlaheiðargöng verði grafin yfirleitt. Ég veit þó að sjálf mun ég fegin keyra þessi göng, verði þau að veruleika, og borga fyrir það toll. Ég hugsa að sá tollur verði alltaf lægri en hinn, það er sá tollur að þurfa að eyða nótt af páskafríinu í blindbyl uppi í skarði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Magga Stína! Helga Völundardóttir Skoðun Minntist ekkert á Evrópusambandið Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun 7 milljarða húsnæðisstuðningur afnuminn… en hvað kemur í staðinn? Vilhjálmur Hilmarsson Skoðun Betri mönnun er lykillinn Skúli Helgason,Sabine Leskopf Skoðun Sólheimar í Grímsnesi – að gefnu tilefni Páll Sævar Garðarsson,Sigurður Örn Guðbjörnsson Skoðun Eru stjórnarandstæðingar viljandi að misskilja samsköttun? Þórhallur Valur Benónýsson Skoðun Mansalsmál á Íslandi Kristján Þórður Snæbjarnarson Skoðun Þetta er námið sem lifir áfram Bryngeir Valdimarsson Skoðun Tökum á glæpahópum af meiri þunga Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Skoðun Árborg - spennandi kostur fyrir öll Guðný Björk Pálmadóttir Skoðun
Ég þekki hjón sem gistu eitt sinn heila nótt í bílnum sínum uppi í Víkurskarði með þremur ungum börnum. Fjölskyldan ætlaði sér yfir í næstu sveit yfir páskahelgina og lagði af stað í góðu veðri frá Akureyri. Það var líka gott veður í sveitinni þangað sem ferðinni var heitið, en í skarðinu lentu þau í blindbyl og sáu hvorki hvað sneri upp né hvað sneri niður. Björgunarsveit á snjóbíl bjargaði þeim í dagrenningu ásamt fjölda fólks sem einnig hafði eytt nóttinni í skarðinu. Fjölskyldunni varð ekki meint af, enda vel búin og nestuð. Víkurskarð er veðravíti á þjóðvegi 1. Þar uppi getur verið kolvitlaus bylur en logn og blíða sitthvoru megin við. Þegar ég sótti skóla á Akureyri í eina tíð átti ég leið um skarðið ófáar helgarnar. Foreldrar mínir hringdu þá jafnan um nærsveitir að leita eftir einhverjum sem ég gæti verið í samfloti við yfir skarðið. Það var ekki ráðlegt að leggja á það einn. Ég veit ekkert hvað kostar að ryðja þetta skarð á veturna. Ég veit heldur ekkert hversu margar ferðir á vetri eru farnar þangað upp eftir að bjarga vegfarendum sem festast þar í snjóbyl, né hvað þær kosta eða hver borgar. Ég veit ekki hversu margir bílar fara þar út af snarbrattri hlíðinni á ári vegna hálku og ég hef ekki hugmynd um hversu margir metrar af vegriðum hafa verið settir þar upp, eftir að einhver bíllinn fór einmitt út af. Ég veit ekki hvað hallinn á veginum er margar gráður sitt hvoru megin niður af skarðinu né um hversu mörg prósent veggrip hjólbarða minnkar í rigningu, ísingu, snjó eða roki. Ég veit heldur ekki nákvæmlega hversu margir bensínlítrar né hversu margar krónur sparast við að aka beinustu leið gegnum göng í Vaðlaheiði á jafnsléttu. Ég hef heldur ekki reiknað nákvæmlega hversu margar mínútur ég spara á ferð minni við það að aka í gegnum göngin. Ég veit ekkert hversu margir eru með eða á móti því að Vaðlaheiðargöng verði grafin yfirleitt. Ég veit þó að sjálf mun ég fegin keyra þessi göng, verði þau að veruleika, og borga fyrir það toll. Ég hugsa að sá tollur verði alltaf lægri en hinn, það er sá tollur að þurfa að eyða nótt af páskafríinu í blindbyl uppi í skarði.