Lífið

Hermann seldur til Þýskalands

Hermann Stefánsson. Algleymi kemur út í Þýskalandi í haust.
Hermann Stefánsson. Algleymi kemur út í Þýskalandi í haust.
Þýska forlagið Litteraturverlag hefur tryggt sér útgáfuréttinn á skáldsögu Hermanns Stefánssonar, Algleymi, sem út kom hjá Bjarti haustið 2008.

Algleymi kemur út fyrir bókastefnuna í Frankfurt í haust, þar sem Ísland skipar heiðurssess. Þetta er fyrsta bókin eftir Hermann sem Bjartur selur útgáfuréttinn á til erlends forlags.

Algleymi fjallar um Guðjón Ólafsson sem vaknar á sjúkrahúsi og hefur misst minnið og leitar svara við hvað gerðist.

Smám saman opnast lesandanum ógnvænlegur heimur þar sem dularfullar ofsóknir virðast viðgangast, lykilatvik úr mannkynssögunni birtast í nýju ljósi, hulunni er svipt af dulmögnuðu handriti frá miðöldum, það brestur á með æðisgengnum flótta – og inn í þetta blandast mesta eðlisfræði-tilraun allra tíma sem fram fer í agnahraðli CERN í Sviss.

Algleymi er þriðja skáldverkið eftir Hermann á vegum Bjarts; áður komu út smásagnasafnið Níu þjófalyklar og skáldsagan Stefnuljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×