Körfubolti

Logi og félagar unnu dramatískan útisigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Mynd/Anton
Logi Gunnarsson skoraði 19 stig þegar Solna Vikings vann 86-85 sigur á LF Basket í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Solna tryggði sér sigurinn átta sekúndum fyrir leikslok.

LF basket er í öðru sæti sænsku deildarinnar og hjálpuðu því Logi og félagar öðru Íslendingaliði í toppbaráttunni. Sundsvall, lið Hlyns Bæringssonar og Jakobs Sigurðarsonar, heldur því toppsætinu þrátt fyrir tap í síðasta leik.

Solna byrjaði ekki vel, var níu stigum undir eftir fyrsta leikhluta (25-34) og fjórtán stigum undir í hálfleik (39-53). Solna vann hinsvegar þriðja leikhlutann 28-10 og hafði síðan betur eftir jafnan og spennandi lokaleikhluta.

Logi skoraði 19 stig á 34 mínútum en hann var líka með 3 stoðsendingar, 3 fráköst og 2 stolna bolta. Logi setti niður þrjá þrista og hitti alls úr 7 af 20 skotum sínum í leiknum.

Solna vann sinn annan leik í röð en er áfram í 6. sæti deildarinnar með 11 sigra og 11 töp. Logi hefur skorað 13 stig eða meira í síðustu þrettán leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×