Íslenski boltinn

Lagerbäck: Get ekki valið alla leikmenn í fyrsta leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck
Lars Lagerbäck Mynd/Vilhelm
Lars Lagerbäck var í stuttu viðtali við heimasíðu KSÍ í dag þar sem var farið yfir tvo fyrstu landsleikina undir hans stjórn. KSÍ tilkynnti í dag að íslenska karlalandsliðið mun spila við Japan 24. febrúar næstkomandi en áður hafði verið gefið út að liðið mætir Svartfjallalandi fimm dögum síðar.

„Þetta verður auðvitað fyrsti leikurinn minn með liðið og þó svo að ég geti ekki valið alla leikmenn sem ég myndi vilja í þennan leik, þar sem þetta er ekki alþjóðlegur leikdagur, þá er frábært að fá þennan leik og ég er mjög ánægður," sagði Lars Lagerbäck inn á heimasíðu KSÍ.

„Væntanlega verða breytingar á hópnum fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi og ég vonast til að geta skoðað sem flesta leikmenn. Í raun hentar þetta mjög vel, því ég fæ þarna tækifæri til að skoða stóran hluta þeirra leikmanna sem mér stendur til boða að velja í framhaldinu. Ég er mjög ánægður með að fá þessa tvo leiki svona snemma, þetta er mjög jákvætt og KSÍ hefur staðið vel að málum í þessari vinnu," sagði Lagerbäck

„Þarna mun mér gefast tækifæri til að hitta leikmennina, fylgjast með þeim og ræða við þá, sjá þá á æfingum og í leikjum, sjá hvernig þeir eru í hóp og hvernig skapgerð menn hafa, hvaða eiginleika. Skapgerð og liðsheild er eitthvað sem ég legg mikið upp úr. Það verður spennandi að sjá hvernig leikmennirnir bregðast við mínum hugmyndum um leikskipulag og leikaðferð. Æfingarnar munu snúast mikið um taktík og þessir tveir leikir gefa okkur frábært tækifæri til að skoða þessi atriði," sagði Lagerbäck.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×