Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Snæfell - Keflavík 88-93

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Mynd/Stefán
Keflavík mætir Grindavík í úrslitum Lengjubikarsins á morgun eftir góðan fimm stiga sigur á Snæfelli 93-88 í kaflaskiptum leik þar sem Keflvíkingar stóðust áhlaup Snæfell á lokakaflanum.

Keflavík hóf leikinn betur og náði átta stiga forystu 17-9 þegar rúmlega fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Snæfell bætti þá í vörnina og kom sér inn í leikinn með því að skora átta stig gegn tveimur á einni og hálfri mínútu. Snæfell lét ekki staðar numið þar og komst yfir þegar sekúnda var eftir af leikhlutanum, 25-23.

Jafnt var á öllum tölum framan af öðrum leikhluta þar sem liðin skiptust á að leiða. Sóknarleikurinn var í fyrir rúmi en þegar tvær á hálf mínúta var til hálfleiks fór allt í baklás hjá Snæfelli og Keflavík skoraði þrettán stig gegn tveimur fram að hálfleik og Keflavík því átta stigum yfir í hálfleik, 59-51.

Snæfell reyndi hvað liðið gat að koma sér inn í leikinn í þriðja leikhluta með fínum varnarleik. Liðið náði að minnka muninn í eitt stig 68-69 þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum en Keflavík seig þá fram úr á ný og munaði sex stigum á liðunum fyrir fjórða leikhluta 74-68.

Snæfell bætti enn í vörnina í fjórða leikhluta. Keflavík skoraði aðeins sex stig fyrstu sex mínútur leikhlutans og Snæfell komst þrem stigum yfir, 83-80. Keflavík jafnaði jafn harðan í sinni næstu sókn og upphófst æsilegur lokakafli.

Jarryd Cole tók sóknarleik Keflavíkur yfir í stöðunni 85-85. Hann skoraði í tveimur sóknum í röð en í milli tíðinni skoraði Jón Ólafur úr einu víti og því var Keflavík þremur stigum yfir þegar 27 sekúndur voru eftir og Snæfell tók leikhlé.

Jón Ólafur og Steven Gerrard skiptust á tveimur vítum áður en Marquis Hall reyndi þriggja stiga skot sem var víðs fjarri og átta sekúndur eftir. Gerrard nýtti aftur vítin sín og tryggði fimm stiga sigur.

Sigurður: Gerðum réttu hlutina í lokin

„Þetta var hörkuleikur eins og alltaf gegn þessu liði. Við vorum lélegir varnarlega í fyrri hálfleik en spiluðum hana vel í seinni hálfleik. Við lokuðum á það sem þeir gera vel og þess vegna unnum við," sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur eftir leikinn.

„Sóknarleikurinn var mjög góður í fyrri hálfleik en hann var hræðilegur í seinni hálfleik. Við breyttum engu en skotin duttu bara ekki í seinni hálfleik. Við fengum fullt af opnum skotum sem duttu ekki. Stigaskor okkur í seinni hálfleik var algjört grín en það dugði sem er flott."

„Ég held að fæstir hafi trúað því að við færum í úrslit. Mér fannst ég heyra að flestir hafi trúað því að Snæfell myndi vinna í kvöld en ekki mínir menn, þetta var gott hjá þeim. Við erum ekki uppteknir að þeirri umræðu, við vissum hvað við ætluðum að gera," sagði Sigurður sem viðurkenndi að sigurinn gat fallið hvoru megin sem var á lokakaflanum.

„Algjörlega en þá gerðum við réttu hlutina í sókninni. Við fengum auðveldar körfur. Þegar það gengur þá er þetta skemmtilegt," sagði Sigurður að lokum.

Ingi Þór: Hefðum getað stolið þessu

„Það var meiri kraftur í Keflavíkurliðinu. Við byrjuðum ekki að spila vörn fyrr en í seinni hálfleik sem er of seint. Við fengum 59 stig á okkur í fyrri hálfleik sem er algjörlega fáránlegt. Að tapa fyrir þrem mönnum er ekki gott lið," sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir leikinn.

„Ég er ekki ánægður með hvað við opnum okkur mikið. Við gerðum betur í dag varnarlega en á móti þeim síðast en þetta féll með þeim á úrslitastundu. Við náðum þessu í jafnan leik í lokin en við hefðum getað stolið þessu," sagði Ingi Þór sem neitaði því að vera svekktur yfir að fá bara einn leik á þessari úrslitahelgi Lengjubikarsins.

„Það er gaman að taka þátt í þessu. Það eru ekki nema fjögur lið sem fá að taka þátt í þessu. Við erum stoltir að vera hérna eftir að sigra Tindastól og Stjörnuna í erfiðum riðli. Við vildum meira og erum langt frá því að vera sáttir en við þurfum að gera betur til gera eitthvað," sagði Ingi Þór að lokum.

Snæfell-Keflavík 88-93 (25-23, 26-36, 17-15, 20-19)

Snæfell: Marquis Sheldon Hall 25/5 fráköst, Quincy Hankins-Cole 22/11 fráköst/4 varin skot, Jón Ólafur Jónsson 18/7 fráköst, Sveinn Arnar Davidsson 9/5 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 5, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 5/4 fráköst, Ólafur Torfason 4/6 fráköst.

Keflavík: Jarryd Cole 36/10 fráköst, Steven Gerard Dagustino 26/6 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Charles Michael Parker 12/6 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Almar Stefán Guðbrandsson 9/10 fráköst/3 varin skot, Valur Orri Valsson 7, Gunnar H. Stefánsson 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×