Fótbolti

Lít út fyrir að hafa lent í bardaga á móti báðum Klitschko-bræðrunum í einu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Kehl.
Sebastian Kehl. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Sebastian Kehl, fyrirliði Dortmund, fékk slæmt spark í andlitið í Meistaradeildarleiknum á móti Marseille í gærkvöldi og var borinn útaf eftir aðeins rúmlega hálftíma leik. Stephane Mbia, leikmaður Marseille, fékk gula spjaldið fyrir sparkið en Kehl endaði upp á spítala.

„Fyrst koma góðu fréttirnar. Það er ekkert brotið og augað er í lagi," sagði Sebastian Kehl á fésabókarsíðunni sinni. „Nú koma hinsvegar slæmu fréttirnar. Ég lít út fyrir að hafa lent í bardaga á móti báðum Klitschko-bræðrunum í einu," skrifar Sebastian Kehl.

Leikmenn Dortmund hafa verið afar óheppnir í vetur þegar kemur að andlitsmeiðslum því þetta eru þriðju slík meiðsli á stuttum tíma. Miðjumaðurinn Sven Bender kjálkabrotnaði á tveimur stöðum í leik á móti Arsenal fyrir tveimur vikum og varnarmaðurinn Neven Subotic kinnbeinsbrotnaði í byrjun nóvember.

Sebastian Kehl er 31 árs varnartengiliður og hefur spilað með Dortmund frá árinu 2001. Hann lyfti Þýskalandsskildinum eftir sigur liðsins í þýsku deildinni síðasta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×