Fótbolti

Pulis býður Manchester-liðin velkomin í Evrópudeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Tony Pulis, stjóri Stoke City, er ánægður með að Manchester-liðin City og United munu vera í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit Evrópudeildar UEFA í næstu viku.

Stoke á eftir einn leik í sínum riðli í Evrópudeildinni en er þegar búið að tryggja sér sæti í 32-liða úrslitunum.

„Þetta voru auðvitað mikil vonbrigði fyrir Alex Ferguson og Roberto Mancini en þetta gerir það að verkum að Evrópudeildin verður mun meira spennandi fyrir vikið,“ sagði Pulis.

„Það er mjög spennandi tilhugsun fyrir hin liðin að mæta mögulega Manchester-liðunum, líka fyrir okkur. Leikir í Evrópudeildinni hafa ekki fengið mikið áhorf en það mun örugglega breytast mikið. Ég er viss um að þeir hjá Channel 5 séu í sjöunda himni.“

„Ég vona bara að við verðum heppnir með andstæðing og mætum liði frá vesturhluta Evrópu - við erum búnir að ferðast vel yfir 16 þúsund kílómetra í haust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×