Körfubolti

Strákarnir skora lítið í spænska körfuboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Haukur Helgi Pálsson og Jón Arnór Stefánsson hafa ekki verið að skora mikið með liðum sínum í spænsku úrvaldeildinni að undanförnu og þeir voru aðeins með tvö stig samanlagt um helgina.

Haukur Helgi var stigalaus á tæpum átta mínútum í 81-73 heimasigri Assignia Manresa á Bizkaia Bilbao Basket en Haukur tók aðeins eitt skot í leiknum. Þetta var þriðji leikur Manresa í röð þar sem Haukur nær ekki að komast á blað.

Jón Arnór skoraði 2 stig á rúmum 18 mínútum þegar CAI Zaragoza tapaði 63-67 á útivelli á móti Asefa Estudiantes. Jón hitti aðeins úr 1 af 5 skotum sínum en var með 4 fráköst og 2 stoðsendingar. Jón hefur aðeins skorað samtals 9 stig í síðustu þremur leikjum Zaragoza.

Haukur Helgi og Jón Arnór eru báðir góðir varnarmenn og hjálpa liðum sínum þar en ekkert gengur hjá þeim í sókninni þessa dagana. Jón Arnór hefur sem dæmi ekki sett niður þrist í síðustu fjórum leikjum sínum (0 af 8) sem óvanalegt á þeim bænum.

Assignia Manresa er í 7. sæti deildarinnar með 4 sigra í 6 leikjum en CAI Zaragoza er hinsvegar aðeins í 15. sæti með 1 sigur í 5 leikjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×