Íslenski boltinn

Stefán Þór tryggði strákunum sæti í milliriðli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Þór Pálsson
Stefán Þór Pálsson Mynd/belja.is
ÍR-ingurinn Stefán Þór Pálsson var hetja íslenska 17 ára landsliðsins sem tryggði sér sæti í milliriðli í undankeppni EM með því að vinna 1-0 sigur heimamönnum á Ísrael í lokaleik riðilsins síns í dag.

Öll liðin í riðlinum voru með þrjú stig eftir tvo leiki en þessi sigur íslensku strákanna á Ísrael auk markalaus jafnteflis hjá Sviss og Grikklandi sá til þess að íslenska liðið vann riðilinn og komst áfram.

Stefán Þór skoraði eina mark leiksins á 77. mínútu en íslenska liðið hafði verið manni flerii frá því að Ramzi Safuri fékk sitt annað gula spjald á 44. mínútu.

Gunnar Guðmundsson er þjálfari íslenska liðsins en þeir urðu Norðurlandameistarar undir hans stjórn fyrr í sumar. Íslenska liðið vann þá 1-0 sigur á Dönum í úrslitaleik. Fyrirliði liðsins er Fylkismaðurinn Hjörtur Hermannsson sem steig sín fyrstu sport í Pepsi-deildinni í sumar.

Íslenska liðið steinlá 1-5 á móti Sviss í fyrsta leik en strákarnir gáfust ekki upp og tryggðu sig áfram með 1-0 sigrum á Grikkjum og Ísraelsmönnum. Stefán Þór lagði einmitt upp sigurmarkið á móti Grikkjum en það skoraði Blikinn Páll Olgeir Þorsteinsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×