Íslenski boltinn

Pearce saknar leikmannanna sem voru valdir í A-landslið Englands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Danny Welbeck var tekinn úr U-21 liðinu í A-landslið Englands.
Danny Welbeck var tekinn úr U-21 liðinu í A-landslið Englands. Nordic Photos / Getty Images
Stuart Pearce, þjálfari U-21 liðs Englands, segist sakna þeirra leikmanna sem voru teknir inn í A-landslið Englands fyrir leik þess gegn Svartfjallalandi á föstudaginn.

U-21 lið Íslands og Englands mætast á Laugardalsvelli á morgun og segist Pearce vera ánægður með þann hóp sem hann tók með sér til Íslands. „Maður vill alltaf hafa sína sterkustu leikmenn. Jack Wilshere er meiddur eins og er og þá voru þrír leikmenn sem ég valdi í mitt lið, þeir Phil Jones, Danny Welbeck og Kyle Walker, teknir inn í A-landsliðið.“

„Þetta eru því fjórir mjög sterkir leikmenn sem ég hef misst. En svona er þetta hjá öllum löndum. Sjálfsagt eru 1-2 leikmenn hjá Íslandi sem eiga við meiðsli að stríða og einhverjir sem eru í A-liðinu.“

„Ég tel því að ég sé ekki í annarri stöðu en aðrir kollegar mínir. Þetta gefur mér þar að auki tækifæri til að skoða leikmenn sem hafa verið að bíða þolinmóðir á hliðarlínunni hingað til.“

Pearce neitaði því þó ekki að sennilega eru þessir sterkustu leikmenn sem enn eru gjaldgengir í U-21 liðið fyrst og fremst orðnir A-landsliðsmenn.

„Þeir eru það í dag. Maður vonast þó til þess að þessir leikmenn standi manni til boða á stórmótum eða í mjög mikilvægum leikjum. En þeir eru A-landsliðsmenn.“

Hann segir þó mikilvægt að halda vel utan um unga leikmenn. „Hvað gerist þegar þeir ná sér ekki á strik? Hættum við þá að nota þá? Við reynum frekar að veita þeim þann stuðning sem þeir þurfa hverju sinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×