Íslenski boltinn

Umfjöllun: Valsstúlkur úr leik eftir tap gegn Glasgow City

Stefán Árni Pálsson á Vodafonevelli skrifar
Hólmfríður og félagar komust lítt áfram í dag.
Hólmfríður og félagar komust lítt áfram í dag. Mynd/pjetur
Glasgow City FC flugu áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 3-0 sigur á Val að Hlíðarenda í kvöld. Valsstúlkur náðu sér aldrei á strik í leiknum og voru úrslitin svo sannarlega sanngjörn. Hallbera Guðný Gísladóttir skoraði sjálfsmark í upphafi leiksins en Lisa Evans bætti síðan tveim mörkum við í síðari hálfleik fyrir gestina.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Valsstúlkur en strax frá byrjun sóttu þær skosku af krafti á mark heimamanna.

Eftir aðeins tíu mínútna leik skoraði Hallbera Guðný Gísladóttir sjálfsmark. Emma Mitchell, leikmaður Glasgow, hafði sent boltann inn í teiginn en hann rataði beint í Hallberu og þaðan í netið. Virkilega klaufalegt mark og hræðileg byrjun fyrir heimastúlkur.

Eftir markið komu Valsstúlkur til baka og fengu nokkur tækifæri til að komast í ákjósanleg færi en allt kom fyrir ekki. Rétt fyrir leikhlé skaut Jane Ross, leikmaður Glasgow, í þverslána og engu munaði að staðan væri 2-0 í hálfleik.

Gestirnir voru mun betri aðilinn í byrjun síðari hálfleiks og réðu ferðinni. Vörn Vals var virkilega götótt og ekki þurfti mikið til svo að leikmenn Glasgow kæmust í gegn. Þegar hálftími var eftir af leiknum skoruðu þær skosku fínt mark en þar var að verki Lisa Evans. Hún var síðan aftur á ferðinni aðeins tveim mínútum síðari þegar hún slapp ein í gegn og renndi boltanum snyrtilega framhjá Meagan í marki Vals.

Staðan var allt í einu orðinn 3-0 og vonin um að komast áfram í Meistaradeild Evrópu nánast farinn.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og öruggur sigur gestanna því staðreynd. Valur kemst því ekki lengra í Meistaradeild Evrópu í ár, en Glasgow City mætir Turbine Potsdam frá Þýskalandi í 16-liða úrslitum keppninnar.

Valur 0 – 3 Glasgow City FC

0-1 Hallbera Guðný Gísladóttir, sjálfsmark (11.)

0-2 Lisa Evans (60.)

0-3 Lisa Evans (62.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×