Sport

Inga Elín setti Íslandsmet í 400 metra skriðsundi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Elín Cryer er aðeins sautján ára.
Inga Elín Cryer er aðeins sautján ára. Mynd / Sundsamband.is
Inga Elín Cryer úr Sundfélagi Akraness setti Íslandsmet í 400 metra skriðsundi í 25 metra laug í landskeppni Íslands og Færeyja í Klakksvik í gær. Inga synti á 4:15,13 mínútum og bætti gamla metið um fjóra hundruðustu úr sekúndu.

Inga tryggði sér þátttökurétt á EM í 25 metra laug í Póllandi sem fram fer í desember. Gamla metið, 4:15,17 mínútur, var í eigu Sigrúnar Brár Sverrisdóttur sem hún setti á Íslandsmótinu í 25 metra laug árið 2009.

Þá setti Ólöf Edda Eðvarðsdóttir úr ÍRB telpnamet í 200 metra bringustundi í 25 metra laug. Ólöf synti á tímanum 2:35,28 mínútur og bætti met Erlu Daggar Haraldsdóttur frá 2002 um rúmar tvær sekúndur.

Ísland hafði sigur í landskeppninni gegn Færeyingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×