Fótbolti

Ferguson óánægður með vörn og miðju United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United.
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að sínum mönnum hafi verið refsað fyrir einbeitingarleysi í varnarleik sínum gegn svissneska liðinu Basel í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

United mátti þakka fyrir að ná jafntefli, 3-3, í kvöld. United komst þó í 2-0 forystu en fékk þrjú mörk á sig í síðari hálfleik áður en Ashley Young jafnaði metin með skalla á 90. mínútu.

„Við vorum kærulausir. Þetta var í raun áminning til okkar því einbeitingarleysi varð okkur næstum því að falli í kvöld. En okkur tókst að bjarga þessu,“ sagði Ferguson við fjölmiðla eftir leikinn.

„Það er slæmt að fá þrjú mörk á sig á heimavelli. Vörnin og miðjan verða að standa sig betur hvað einbeitingu varðar. Ef maður gefur eitthvað eftir verður manni refsað í jafn sterkri keppni og Meistaradeild Evrópu.“

Basel komst í 3-2 forystu með marki úr vítaspyrnu sem Ferguson var ekki sáttur við. „Mér fannst þetta ekki vera víti. (Antonio) Valencia náði til boltans og vann hann. Þetta var slæm ákvörðun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×