Fótbolti

Chamberlain yngsti Englendingurinn til að skora í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Oxlade-Chamberlain.
Alex Oxlade-Chamberlain. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal-maðurinn Alex Oxlade-Chamberlain setti nýtt enskt met í gær þegar hann kom Arsenal í 1-0 á móti Olympiakos í Meistaradeildinni. Oxlade-Chamberlain, sem kom frá Southampton í sumar, varð þar með yngsti enski leikmaðurinn til að skora í Meistaradeildinni.

Oxlade-Chamberlain bætti þarna met liðsfélaga síns Theo Walcott um 177 daga en Walcott kom einnig til Arsenal frá Southampton á sínum tíma.

Oxlade-Chamberlain er fæddur 15. ágúst 1993 og var því aðeins 18 ára og 44 daga gamall þegar hann skoraði laglegt mark á áttundu mínútu leiksins í gær en þetta var hans fyrsti leikur í Meistaradeildinni.

Walcott, sem er fæddur 16. mars 1989, var 18 ára og 221 dags gamall þegar hann skoraði tvö mörk í 7-0 sigri Arsenal á Slavia Prag 23. október 2007.

Yngsti leikmaður Arsenal til þess að skora í Meistaradeildinni er hinsvegar Cesc Fàbregas sem var bara 17 ára og 217 daga gamall þegar hann skoraði á móti Rosenborg 7. desember 2004.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×