Fótbolti

AEK tapaði á heimavelli fyrir Sturm Graz

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/AEK
AEK Aþena, með Eið Smára Guðjohnsen innanborðs, tapaði fyrir austurríska liðinu Sturm Graz í Evrópudeild UEFA í kvöld, 2-1. Sigurmarkið kom í uppbótartíma.

Danska liðið OB tapaði einnig á heimavelli en liðið mætti enska úrvalsdeildarliðinu Fulham. Andy Johnson skoraði bæði mörkin en Rúrik Gíslason kom inn á sem varamaður fyrir OB þegar ellefu mínútur voru til leiksloka.

Eiður Smári lék allan leikinn fyrir AEK og átti tvær ágætar marktilraunir í upphafi leiks. AEK komst svo yfir á 50. mínútu er Jose Carlos skoraði en aðrein þremur mínútum síðar fékk Traianos Dellas, fyrirliði AEK, rautt spjald fyrir sína aðra áminningu í leiknum.

Sturm Graz gekk á lagið og tryggði sér sigurinn með tveimur mörkum á lokamínútum leiksins. Fyrst Thomas Burgstaller á 88. mínútu og svo Mario Haas í þriðju mínútu uppbótartímans.

AEK tapaði fyrir Anderlecht í fyrstu umferð keppninnar og er því enn án stiga í sínum riðli.

Þá var Jóhann Berg Guðmundsson í byrjunarliði AZ sem gerði 1-1 jafntefli við Metalist Kharkiv í Úkraínu, 1-1. Jozy Altidore skoraði mark AZ en Jóhann Berg var tekinn af velli á 80. mínútu.

Þá má nefna að Birmingham vann 2-1 sigur á NK Maribor á sama tíma. Celtic gerði 1-1 jafntefli við Udinese og Schalke 04 vann Maccabi Haifa, 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×