Íslenski boltinn

Bikar á loft upp á Skaga í gær - myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reynir Leósson, fyrirliði ÍA, með bikarinn í gær.
Reynir Leósson, fyrirliði ÍA, með bikarinn í gær. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Skagamenn eru 1. deildarmeistarar í ár og þeir fengu bikarinn afhendan eftir 5-0 stórsigur á KA á Akranesi í gær. Skagamenn tryggðu sér sæti í Pepsi-deildinni fyrir 25 dögum og voru fyrir nokkru orðnir B-deildarmeistarar.

Þetta er í þriðja sinn sem Skagamenn vinna B-deildina en þeir unnu hana einnig sumurin 1968 og 1991. Þá leið stuttur tími í að þeir unnu Íslandsbikarinn en ÍA vann hann 1970 á sínu öðru ári og árið 1992 varð félagið síðan fyrstu og einu nýliðarnir til að verða Íslandsmeistarar.

Hjörtur Júlíus Hjartarson kom inn á sem varamaður á 58. mínútu í leiknum í gær og skoraði þrjú síðustu mörk Skagamanna í leiknum. Hjörtur hefur þar með skorað 15 mörk í 18 leikjum í 1. deildinni í sumar. Fannar Freyr Gíslason og Mark Doninger skoruðu tvö fyrstu mörk ÍA í leiknum.

Skagamenn hafa unnið 16 af 21 leik sínum í 1. deildinni í sumar og hafa skorað í þeim 52 mörk gegn 13. ÍA vann 14 af 15 fyrstu leikjum sínum en gaf síðan aðeins eftir í næstu leikjum þegar úrvalsdeildarsætið var tryggt.

Guðmundur Bjarki Halldórsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á leik ÍA og KA á Akranesvellinum í gær og náði þessum skemmtilegu myndum. Myndirnar má sjá í albúminu hér að neðan. Hægt er að sjá myndirnar stærri með því að smella á þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×