Fótbolti

Arsene Wenger sleppur ekki við bannið - UEFA vísaði áfrýjunni frá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/AFP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, verður í leikbanni í fyrstu tveimur leikjum Arsenal í Meistaradeildinni en UEFA vísaði áfrýjun hans í dag frá. Wenger missir því að útileik við Borussia Dortmund og heimaleik við Olympiacos sem fara fram 13. og 28. september.

Wenger fékk tveggja leikja bann fyrir að virða ekki leikbann sitt í fyrri leik Arsenal og Udinese í forkeppni Meistaradeildarinnar. Leikurinn fór fram á Emirates-leikvanginum og sást Wenger margoft koma skilaboðum niður á bekkinn til þeirra sem áttu að stýra liðinu í fjarveru hans.

Wenger hélt að hann mætti koma skilaboðum áleiðis í gegnum þriðja mann en aganefnd UEFA var ekki sammála því og dæmi hann í þetta tveggja leikja bann. Wenger áfrýjaði banninu og fékk því að stjórna Arsenal-liðinu í seinni leiknum á móti Udinese sem Arsenal vann 2-1.

Nú er því komið í ljós að Wenger fær ekki að stýra Arsenal í Meistaradeildinni fyrr en í þriðja leik liðsins sem verður á móti franska liðinu Marseille á útivelli 19. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×