Handbolti

Patrekur: Vil vinna til verðlauna á EM eða HM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Patrekur og austurrísku félagar hans.
Patrekur og austurrísku félagar hans. Mynd/www.oehb.at
Ráðning Patreks Jóhannessonar sem landsliðsþjálfara Austurríkis í handbolta er frágengin. Þetta kemur fram á heimasíðu handknattleikssambands Austurríkis.

Patrekur fær það hlutverk að koma Austurríki á HM 2013 og EM 2014. Austurríkismenn hafa góða reynslu af Íslendingum enda má segja að Austurríki hafi komist á kortið í handbolta undir stjórn Dags Sigurðssonar.

„Við Dagur erum góðir vinir til margra ára. Ég hef margsinnis rætt við hann um handboltann í Austurríki og mun gera enn meira af því í framtíðinni. Það geta allir lært af Degi en ég hef minn eigin stíl og fer mínar eigin leiðir," segir Patrekur á heimasíðu austurríska handknattleikssambandsins.

Þar kemur einnig fram að Patrekur ætli að einbeita sér að starfi sínu sem landsliðsþjálfara Austurríkis. Patrekur lætur því af störfum sem íþróttafulltrúi Garðabæjar. Hann mun þó áfram verða með annan fótinn á Íslandi þar sem hann er í námi.

Gerhard Hofbauer, forseti austurríska handknattleikssambandsins, er ánægður með ráðninguna.

„Við höfum góða reynslu af Íslendingum enda var Dagur Sigurðsson hér. Við vonum að velgengnin haldi áfram undir stjórn Patreks."

Patrekur segir fyrsta markmiðið að vinna leikina í undankeppni HM 2013 í janúar næstkomandi. Hans draumur sé þó að vinna til verðlauna með austurríska landsliðinu á HM eða EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×